Haustverkefnið var einstaklega skemmtilegt og fræðandi verkefni. Það snerist annars vegar um plöntusöfnun og hins vegar um fuglaskoðun. Hér í fyrri hluta verkefnisins má sjá plöntusafnið sem ég útbjó síðastliðið sumar og fram á haust. Þar má sjá heiti viðkomandi plöntu, á móðurmálinu ásamt fræðilegu heiti hennar, myndir sem ég tók sjálf ásamt texta þar sem fram kemur fundarstaður og örlítil fræðsla. Þar á eftir er fuglaskoðunarsafnið. Þar koma fram heiti viðkomandi fugls, ásamt fræðilegu heiti, mynd eða tilraun til þess sem kallast mynd og texti þar sem fram kemur staðsetning og örlítil fræðsla. Ég lagði mikið í safnið og vona að ég geti nýtt það í kennslu þegar það hefur verið yfirfarið. Einnig stefni ég á að bæta safnið verulega með tímanum.
Bakkaaugnfró (Euphrasia arctica) eða Kirtilaugnfró (Euphrasia stricta) fannst í móa norðan megin við Vorsabæjarhamar í Hveragerði 15. ágúst, 2021. Plantan telst afar sjaldgæf. Hún er lávaxin, 5-15 sentímetrar með stutta stöngulliði. Blómin eru nánast alveg fjólublá, hárlaus og neðstu blómin sitja við fjórða til áttunda blaðaparið. Bikarinn er nánast eingöngu með kirtilhárum. Neðsta stoðblaðið er vanalega stærra en hin sem eru ofar (Hörður Kristinsson, 2007). Sjaldgæf tegund á Íslandi en algengust er hún í Hveragerði og meðfram Varmá og virðist aðallega tengjast jarðhitasvæðum (Hörður Kristinsson o.fl., 2018, bls. 622).
Blágresi (Geranium sylvaticum) í skóglendi í Paradísardal, 20 júní 2021. Blágresi er fallega fjólublár fjölæringur sem er mjög áberandi í skóglendi, kjarrlendi, grónum brekkum og skógarbotnum á Íslandi. Hægt er að nýta blöð Blágresis til litunar og þá fæst fallegur blár litur (Skógræktarfélag Íslands, e.d.). Blágresi er talið virka við bólgum og sárum í meltingarvegi ásamt því að vera notuð við niðurgangi. Plantan á að virka vel sem lyf við þvagsýrugigt. Ef blöðin eru soðin og lögð við sár eiga þau að virka til að græða sár og mar (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir, 2011, bls. 18).
Brennisóley (Ranunculus acris) í óræktargarði miðsvæðis í Hveragerði. Hún er og vex á túnum og í högum, grösugum bollum, giljum og dældum fjalla. Fallega gul blómin eru fimmdeild og um það bil 2 sentímetrar í þvermáli. Bikarinn er einfaldur, bikarblöðin eru loðin og neðri hluti stöngulsins er oft mjög loðinn (Hörður Krisinsson, 2010, bls. 166). Brennisóley hefur verið notuð í bakstra til að leggja við gigt, verki í baki, liðum og höfði (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 2011, bls. 25).
Gleym-mér-ei (Myosotis arvensis (L.) Hill) vex hér upp úr holu á gangstétt í Heiðmörk í Hveragerði 14. júní, 2021. Gleym-mér-ei er falleg planta með smáum heiðbláum blómum (4-5 millimetrar). Ein- eða tvíær með upprétta stöngla og blöðin standa stök, lensulaga og eru þakin hvítum hárum. Gleym-mér-ei vex í nánd við byggð og er algeng á láglendi um mestan hluta landsins. Áður fyrr var gerð olía úr plöntunni sem talin var bakteríudrepandi og var hún meðal annars notuð gegn krabbameini og berklum (Hörður Kristinsson o.fl., 2018, bls. 575). Mjög skemmtilegt er að festa gleym-mér-ei við klæðnað þar sem plantan helst föst vegna háranna.
Hlíðamaríustakkur (alchemilla filicaulis) í móa norðan megin við Vorsabæjarhamar í Hveragerði 15. ágúst 2021. Plantan er af rósaætt (Hörður Kristinsson, 2010, bls. 194) og er með stór blöð sem eru handstrengjótt, kringlótt eða nýrnalaga. Blöðin eru vaxkennd og vatn sem gufar út úr plöntunni safnast á blöðunum og myndar það stóra dropa. Á öldum áður reyndu gullgerðarmenn að vinna gull úr dropunum. Plantan var mikið notuð til litunar og einnig er sagt að ef sofið er á plöntunni komi það í veg fyrir martraðir (Plöntuvefurinn, e.d.).vex í skjólgóðum hvömmum, bollu, grónum hlíðum og lækjargilum (Hörður Kristinsson, 2010, bls. 194). Maríustakkur stillir tíðaverki kvenna og of miklar blæðingar kvenna (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir, 2011, bls. 65).
Ljósberi (Viscaria alpina) í mel 12 júní 2021. Ljósberi er algeng, smávaxin planta (6-15 sentímetrar) af hjartagrasætt, sem vex í þurrum grasbölum, brekkum, flögum og melum. Hún er í blóma í júlí (Hörður Kristinsson, 2010, bls. 64). Ljósberi hefur stundum verið nefndur ilmjurt eða ununarjurt vegna þess að ilmurinn af honum er sætur (Hörður Kristinsson o.fl., 2018, bls. 515).
Mjaðurt (Filipendula ulmaria) fannst í skóglendi í hlíð Reykjafjalls við Hveragerði 19. ágúst, 2021. Plantan er hávaxin, um það bil 30-70 sentímetrar á hæð og vex í deigum grasmóum, graslautum, skóglendi eða mýrum. Hún vex að jafnaði ekki villt nema í hlýrri sveitum landsins þar sem hún er hitakær og er því algengara að hún sé ræktuð í görðum (Hörður Kristinsson, 2010, bls. 132). Mjaðurtin er til margra hluta nytsamleg, hún er góð gegn sárum og magabólgu ásamt því að draga úr miklum magasýrum. Hún er góð við gigt, bólgum í liðum, vöðvum og taugum. Hún virkar stemmandi á hægðir og blæðingar í meltingarveg (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir, 2011, bls. 68)
Músaeyra (Cerastium alpinum) fannst í mólendi við Borg í Grímsnesi 12. júní, 2021. Plantan er af hjartagrasætt, algeng og getur verið 8-18 sentímetrar á hæð. Hún vex helst í malarjarðvegi, mólendi og þurrum brekkum (Hörður Kristinsson, 2010, bls. 102).
Skarfakál (Cochlearia officinalis) fannst á klettabjargi í Þorlákshöfn 27. september 2021. Skarfakál er planta af krossblómaætt og er algeng við sjó. Hún vex við fuglabjörg og á klettum og klöppum í fjörum. Á hana koma blóm í maí – júní sem vaxa í klösum, eru gulhvít eða hvít (Hörður Kristinsson, 2010, bls. 146). Skarfakál hefur í gegnum aldirnar verið notuð sem lækningajurt. Plantan inniheldur nokkuð magn C-vítamíns og læknaði jurtin skyrbjúg og fleiri sjúkdóma. Í dag er hún helst notuð gegn gigt, bjúg og ýmsum húðsjúkdómum þar sem hún er talin blóðhreinsandi. Eins þykir gott að merja blöðin og leggja þau fersk við sár (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir, 2011, bls. 77).
Umfeðmingur (vicia cracca) fannst í skóglendi í hlíð Reykjafjalls við Hveragerði 19 ágúst, 2021. Umfeðmingur er fjölær klifurjurt af ertublómaætt, sem styður sig við nærliggjandi gróður með vafþráðum. Plantan vex aðallega í graslendi, á bökkum meðfram ám á sléttum engjum og við vegbrúnir. Blómstrar fallegum fjólubláum blómum í júlí (Hörður Kristinsson, 2010, bls. 32). Margar skrítnar sögur eru sagðar af umfeðmingi. Til dæmis hefur verið sagt að ef hann sé lagður inn fyrir kirkjuhurð þar sem kona sem hefur verið ótrú manni sínum er fyrir innan, þá muni hún ekki komast þaðan út ef umfeðmingurinn liggur þar (Hörður Kristinsson o.fl., 2018, bls. 386).
Fuglasafn
Álft (cygnus cygnus) eða álftir þessar sáust við Þorlákshafnarveg í Ölfusi, gegnt golfvellinum. Álftin telst til andfugla og er stærsti varpfull landsins. Ekki er flókið að greina álftina frá öðrum fuglum þar sem hún er auðþekkjanleg. Kynin eru eins í útliti og er hún eini innlendi svanurinn. Hún er grasbítur og hún parast til langframa, en ef annar fuglinn deyr þá getur hún parast aftur (Hilmar Malmquist, 2015). Til eru mörg falleg ævintýri um svani, t.d. Svanaprinsessan og Litli ljóti andarunginn.
Dúfa (Columba livia) sem hefur gert sig heimskomna í innkeyrslu í garði í Heiðabrún í Hveragerði 29. maí 2021. Hún hafði verið þarna í tvo daga og var mjög gæf, enda er líklegast að hún sé vön mönnum þar sem hún er merkt. Þær eru í eðli sínu félagslyndar og safnast oft saman í æti en einnig til að hvílast og drekka, þessi var þó einsömul. Þær eru mjög ólíkar öðrum fuglum á margan hátt. Þær drekka til að mynda með því að stinga nefinu í vatn og þamba, ólíkt öðrum flestum fuglum. Einnig hafa verið gerðar rannsóknir á eggjahvítu dúfna sem sýna engan náinn skyldleika við aðra núlifandi fugla (Guðmundur P. Ólafsson, 1987, bls. 155).
Skógarþröstur (Turdus iliacus) þessi laumaði sér inn á þessa mynd sem tekin er við Núpastíg í Ölfusi þann 27. september 2021. Á Íslandi eru skógarþrestir algengir varpfuglar. Þeir verpa á ýmsum stöðum þar má nefna kjarr- og skóglendi, bæði í grenitrjám, laufguðum trjám en einnig á jörðinni. Þeir verpa þó einnig á skringilegum stöðum og má þar nefna gluggasyllur, blómapotta, landbúnaðartæki o.fl. Þeir eru að mestu farfuglar en einhver hluti þeirra heldur sig þó hér á veturna. Íslenskir skógarþrestir eru dekkri á litinn en aðrir skógarþrestir og einnig stærri. Skógarþrestir eru friðaðir líkt og aðrir smáfuglar (Ævar Petersen, 1998, bls. 256-257).
Skúmur (Catharacta skua) þessi sást við klettabjarg í Þorlákshöfn þann 27. september 2021.. Skúmur er frekar stór og þrekinn og minnir helst á dökkan, hálsstuttan máf. Hann er dökkbrúnn með ljósari fjöðrum á höfði, hálsi, bringu og baki. Vængirnir eru breiðir, stélið er stutt og breitt. Karlfuglinn er minni en kvenfuglinn en annars eru bæði kynin eins útlítandi. Hann étur helst sandsíli en drepur einnig aðra fugla sér til matar og fer þar að auki í fiskúrgang. Hann er árásagjarn og leggur aðra sjófugla í einelti, s.s. svartfugla, máfa og súlur (Menntamálastofnun, e.d.).
Stelkur (Tringa totanus) á flugi á Snæfellsnesi, nánar tiltekið við Stóru-Þúfu sem stendur við Laxá í Eyja- og Miklaholtshrepp. Stelkurinn er vaðfugl og á sumrin heldur hann sig í votlendi og þurrlendi þar sem gróður er hávaxinn. Á veturna halda þeir sig í grýttum fjörum. Íslenskir stelkar eru stærri en annars staðar og hérlendis er líklega stærsti varpstofn þeirra í Evrópu. Þeir lifa t.d. á skordýrum, lirfum, púpum, krækling, kuðungum (Ævar Petersen, 1998, bls. 162-163).
Tjaldur (Heamatopus ostralegus) þessi var myndaður á túni við Læk í Ölfusi 12. júní 2021. Þeir sækja talsvert á tún á sumrin en á veturna halda þeir sig í fjörum. Þeir eru algengir varpfuglar hérlendis og eru flestir íslenskir tjaldar farfuglar þó hluti þeirra haldi sig hér allan ársins hring. Í fjörunni lifa þeir á skelfiski eins og kræklingi og burstaormum en á túnunum lifa þeir mest á bjöllum og líklega ánamöðkum. (Ævar Petersen, 1998, bls. 138-139).
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir. (2011). Íslenskar lækningajurtir – söfnun þeirra, notkun og áhrif. Mál og menning.
Dangaard, W., White, J.W.C. og Johnsen, S.J. (1989). The abrupt termination of the Younger Dryas climate event. Nature 339.
Guðmundur P. Ólafsson. (1987). Fuglar í náttúru Íslands. Mál og menning.
Hilmar Malmquist. (3.mars, 2015). Álftin. Náttúruminjasafn Íslands. www.nmsi.is/molar/fugl_manadarins/alftin/
Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir. (2018). Flóra Íslands – blómaplöntur og byrkningar. Vaka-Helgafell.
Hörður Kristinsson. (2007). Bakkaaugnfró (Euphrasia arctica). Náttúrufræðistofnun Íslands. www.ni.is/biota/plantae/tracheophyta/magnoliopsida/orobanchaceae/euphrasia-arctica
Hörður Kristinsson. (2010). Íslenska plöntuhandbókin – blómaplöntur og byrkningar. Mál og menning.
Menntamálastofnun. (e.d.). Skúmur. Fuglavefurinn. https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=3&id=19
Skógræktunarfélag Íslands. (e.d.). Blágresi. Skógargátt. https://www.skogargatt.is/blagresi
Ævar Petersen. (1998). Íslenskir fuglar. Mál og menning.