Gestný Rós 11. október 2021
Ég hef gert ráð fyrir því að allir stjórnendur og kennarar séu kunnugir um grunnþætti menntunar, einfaldlega vegna þess að í kennaranáminu er lögð mikil áhersla á þessa þætti. Því velti ég vöngum yfir mikilvægi þessara þátta. Það er því ekki úr vegi að fjalla um þá.
Grunnþættir menntunar eru sex þættir sem settir eru fram í aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldskóla á Ísland og er þeim ætlað að lita allt skólastarf. Þessir grunnþættir eru einstaklega áhugaverðir fyrir mig sem kennaranema og er ég sérstaklega að velta því fyrir hvernig þessir þættir hafa áhrif og styðja við á hvorn annan. Þeir skapa mikilvæga samfellu í íslensku skólakerfi, þeir varða starfshætti, inntak og umhverfi náms á öllum skólastigum (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 7). Þessir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Þeir fléttast inn í allt skólastarf og eiga að birtast í hæfni nemenda, námsmati, skólanámskrá og innra mati skólans (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 36). Hverjum skóla er ætlað að móta skýra stefnu í samræmi við grunnþætti í menntunnar (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 60) og skal meðal annars gert grein fyrir þeim í skólanámskrá (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 66). Skilgreining á grunnþáttum er tilraun til að kortleggja þau meginsvið almennrar menntunar sem skólastarfið stefnir að (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 15). Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, þeir snúast um um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 16). Miklu skiptir að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Þessum grunnþáttum er m.a. ætlað að bæta úr því (bls. 7).
Læsi snýst fyrst og fremst um sköpun merkingar (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 18). Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 19). Læsi á sér víðtæka merkingu en hin almenna merking er að vera læs á texta og skilja hann (Baldur Sigurðsson, e.d.). Til að aðgreina læsi frá hinni hefðbundnu merkingu þá er notast við hugtakið nýlæsi (í fleirtölu, þau læsin, e. new literacies). Merking nýlæsa er alls ekki skýrt skilgreind en kjarni merkingarinnar miðast við færni eða leikni sem nútímamönnum er nauðsynleg, með áherslu á notkun upplýsingatækni og miðlunar (Baldur Sigurðsson, e.d.). Í aðalnámskrá grunnskóla er víða talað um læsi sem myndi flokkast undir merkingu nýlæsa, þar má nefna stafrænt læsi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 20), miðlalæsi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 20, 197, 224-225, 228), fjármálalæsi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 20, 152, 197), menningarlæsi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 130, 197), líkamslæsi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 144), læsi á eigið umhverfi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 148), læsi á manngert umhverfi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 156), vísindalæsi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 168, 197), læsi á tilboð sem sett eru fram í auglýsingum (bls. 196), upplýsingalæsi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 197, 204, 224-225, 228-229), kortalæsi, sögulæsi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 197), læsi á frásagnir (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 200), tæknilæsi (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 225, 228-229) og læsi á texta, myndir og töluleg gögn (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 225). Eflaust má finna dæmi um nýlæsi á fleiri stöðum í aðalnámskrá.
Sjálfbærni er jafnvægisástand og sjálfbær þróun er breytingarferlið þegar verið er að breyta þjóðfélagi, eða minni einingu, og færa það til sjálfbærni. Sjálfbær þróun getur ekki átt sér stað nema innan þeirra takmarka sem vistkerfi jarðar setja okkur. Þannig þurfa nemendur að þekkja, skilja og virða náttúruna. Í samfélagslegu tilliti snýst hugmyndafræðin um jöfnuð, innan kynslóðar og á milli kynslóða. Þannig er mikilvægt að efnahagsvöxtur leiði ekki til óhóflegs ágangs á náttúruna. Skilningur á eigin vistspori stuðlar að sjálfbærri þróun og hófsemi. Í sjálfbærnimenntun felst að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 20).
Í lýðræði taka einstaklingar afstöðu til siðferðilegra álitamála og virkan þátt í mótun samfélagsins. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði. Lýðræðislegt gildismat verður ekki mótað nema allar námsgreinar og öll námssvið séu notuð til þess. Skólum ber að rækta það viðhorf að samfélagið eigi að vera lýðræðislegt og einstaklingarnir gagnrýnir og með framtíðarsýn (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 21). Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 21-22). Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 23).
Sköpun byggist á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika, að skapa er að fara út fyrir mengi hins þekkta og þar með auka þekkingu sína og leikni. Sköpun sem grunnþáttur skal stuðla að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði í skólastarfi. Sköpun beinist ekki sérstaklega að listsköpun og hún snýst ekki eingöngu um að skapa eitthvað nýtt og frumlegt heldur hagnýtingu þess sem fyrir er. Hún snýst þannig um lausnir viðfangsefna og leit að nýjum möguleikum. Sköpun er mikilvægur grunnur að því að horfa til framtíðar og móta sér framtíðarsýn, taka þátt í mótun lýðræðissamfélags og skapa sér hlutverk innan þess (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 24). Að þessu sögðu langar mig að flétta.
Læsi er nauðsynleg í allir sköpun, til að skapa lýðræði, stuðla að heilbrigði og velferð allra, til að skilja hugtök, samfélag, hegðun, tækni, vísindi og svo má lengi telja. Sjálfbærni felst í jafnrétti, lýðræði og mannréttindum ásamt heilbrigði og velferð allra. Sjálfbærni og sjálfbærnimenntun felst í að vera læs á umhverfið og náttúruna. Sjálfbærni er háð því að hugað sé að jafnrétti þjóðfélagshópa (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 17-18). Sjálfbærni snýst um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Sjálfbærni felur í sér virðingu fyrir umhverfinu, ábyrgð, heilbrigði, lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti, ekki bara í nútíma heldur og gagnvart komandi kynslóðum. Þannig er óhugsandi að unnt sé að stuðla að mannréttindum án þess að jafnframt sé leitað eftir sjálfbærni og jafnvægi í þróun samfélagsins. Sjálfbærni er einnig háð því að hugað sé að jafnrétti þjóðfélagshópa (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 17-18). Lýðræði og mannréttindi felast í sjálfbærni. Ekki getur orðið virkt lýðræði án læsis á hvers konar táknkerfi og samskiptakerfi samfélagsins. Virkt lýðræði þrífst aðeins ef stuðlað er að hvers konar jafnrétti milli einstaklinga og hópa í samfélaginu (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 17-18). Mannréttindi allra verða ekki tryggð nema stuðlað sé að heilbrigði og velferð hvers og eins og baráttu gegn mismunun og hvers konar ofbeldi, þar með töldu einelti. Jafnrétti er lýðræðislegt fyrirbæri, það tengist heilbrigði og velferð allra ásamt því að felast í sjálfbærni. Læsi á menningu mismunandi hópa í þjóðfélaginu, skapa leiðir til að finna lausnir og umskapa. Heilbrigði og velferð felast í sjálfbærni því ekki er hægt að huga að velferð allra án sjálfbærni og þar af leiðandi sköpunar og læsis. Sköpun er sjálfbærni og sjálfbærni er sköpun. Sköpun snýst um framtíðarsýn og að finna leiðir til þess að leysa úr vandamálum eins og loftslagsmálum, sem þarfnast sjálfbærni. Sköpun er læsi og læsi er sköpun. Læsi snýst um merkingarsköpun, umsköpun og að umskrifa heiminn og sköpun er læsi á eigið innsæi, færni og leikni.
Grunnþættir menntunar eru allir jafn mikilvægir, hver og einn og þeir þurfa allir að fléttast inn í allt skólastarfi, ekki sem afmarkaðir námsþættir heldur eiga þeir að vera jafn sýnilegir og nauðsynlegir í öllu skólastarfi eins og að bjóða góðan daginn.
Gestný Rós 11. október 2021
Baldur Sigurðsson. (e.d.). Hvað er læsi? Lesvefurinn um læsi og lestrarerfiðleika. https://lesvefurinn.hi.is/node/132
Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013. Sótt af https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=f7d55056-989c-11e7-941c-005056bc4d74
Mynd: Grunnþættir menntunar fléttast saman. Þar sem fléttan hafði flækst allverulega í höfðinu á mér, ákvað ég að koma henni í mynd. Gestný Rós 2021
Gestný Rós 19. apríl 2021
Að vera meðvitaður um uppruna þeirra hluta sem notaðir eru í daglegu lífi er mikilvægt í að átt að sjálfbærari lífsháttum. Umfjöllun mín felst í að skoða mitt eigið vistspor og svara spurningum um tvenns konar vörur sem notaðar eru á mínu heimili, annars vegar matvöru sem er okkur nauðsynleg og hins vegar flík sem ég tel að hægt sé að lifa án. Ég mun gera mitt besta við að greina minn eigin lífstíl með tilliti til umhverfisáhrifa, sjálfbærni og einnig mun ég setja fram tillögur til úrbóta. Ég skoða minn lífsstíl og hvað ég get gert til að minnka mitt fótspor. Síðast en ekki síst fjalla ég um skólakerfið í þessu tilliti og set fram hugmyndir um þær breytingar sem ég gæti gert í mínu persónulega lífi til að ýta undir sjálfbæra lífshætti og sinna minni skyldu um að takast á við umhverfis- og loftslagsvanda.
Sjálfbærni
Mikilvægt er að draga úr neyslu og stefna að sjálfbærri nýtingu auðlinda með framtíð mannkyns og lífs á jörðu að leiðarljósi (Landvernd, 2021). Sjálfbærni er forsenda þess að við getum búið á jörðunni þar sem hún snýst um að vistkerfi og auðlindir jarðar geti haldist í ákveðinni hringrás og til þess að það gangi upp má manneskjan ekki ganga á auðlindir jarðar svo þær klárist. Sjálfbærni þýðir að hlutir geti haldið áfram um ókomna framtíð. Jörðin okkar þarf að geta haldið áfram að sinna tilgangi sínum, framleiða súrefni, hreint vatn og fæðu svo við og komandi kynslóð geti lifað góðu lífi. Ósjálfbærni þýðir að jörðin getur ekki sinnt þessum tilgangi og þar erum við stödd núna. Þegar fólki fjölgar eykst neysla okkar og jörðin verður undir meira álagi í að þjóna tilgangi sínum og á sama tíma hækkar hitastig jarðarinnar vegna lifnaðarhátta okkar og erum við þar af leiðandi að eyðileggja kerfi sem við getum ekki lifað án. Þetta þýðir að jarðarbúar eru ógn gegn sjálfum sér og náttúrunni. Jörðin er kerfi og allt innan þessa kerfis tengist saman, samfélagið, náttúran og efnahagurinn (Realeyesvideo, 2010). Náttúra, samfélag og efnahagur eru þrjár grunnstoðir sjálfbærni. Þessar þrjár grunnstoðir virka ekki vel án hvorrar annarrar, sem dæmi þá getur efnahagurinn ekki verið í lagi ef samfélagið virkar ekki og samfélagið virkar ekki ef að náttúran er ekki í lagi. Til þess að stuðla að sjálfbærni er mikilvægt að stuðla að skilningi fólks á kolefnisspori sínu og samábyrgð í loftslagsmálum.
Kolefnisspor og vistspor
Samábyrgð í loftslagsmálum snýst að mestu leyti um að hver og ein manneskja vinni markvisst að því að minnka kolefnis- og vistspor sitt. Kolefnisspor er mælikvarði á magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar út í andrúmsloftið við mannlegar athafnir eða það magn koltvíoxíðs sem er losað, beint eða óbeint, vegna daglegra athafna, s.s. samgangna, neyslu, fæðuvals, heimilishalds, matarsóunar og annars (Landvernd, 2019c). Vistspor er sá mælikvarði á það hversu mikið af gæðum jarðar einstaklingur nýtir við neyslu sína og hversu miklum úrgangi eða mengun það skilar frá sér. Vistsporið verður því stærra eða meira þegar neyslan verður stærri eða meiri (Landvernd, 2019b). Menn skilja allir eftir sig þessa slóð með því að vera til, sú slóð er mismikil hjá hverjum og einum og það er mikilvægt að vera meðvitaður um það hvað er á okkar eigin slóð vegna þess að neyslan hefur áhrif og það sem við gerum hefur áhrif. Mælikvarði kolefnisspors segir til um magn gróðurhúsalofttegunda sem manneskjur losa í sínu daglega lífi út í loftslagið, bæði beint og óbeint. Loftslag merkir meðalástand lofthjúpsins í langan tíma og er þá litið aldir fram eða aftur í tímann, þess vegna er talað um loftslagsbreytingar en ekki veðurfarsbreytingar (Bjarni E. Guðleifsson og Brynhildur Bjarnadóttir, 2019, bls. 128). Gróðurhúsalofttegundir eru efni sem hafa hitunaráhrif á lofthjúp jarðar, svokölluð gróðurhúsaáhrif og meðalhiti jarðar hefur hækkað um 0,12°C á áratug eða frá 1951 (Bjarni E. Guðleifsson og Brynhildur Bjarnadóttir, 2019, bls. 130). Búseta og lífsstíll hefur því mikil áhrif á stærð kolefnisspors hvers einstaklings en kolefnisspor neyslu hins almenna íbúa á Íslandi er um 12 tonn CO₂ ígilda á ári en þyrfti nú þegar að vera komið niður í um 4 tonn CO₂ ígilda til að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C sem er markmiðið samkvæmt Parísarsamningnum (Kolefnisreiknir, e.d.). Hlutir sem einstaklingar neyta í sínu daglega lífi losa mismikið af gróðurhúsalofttegundum og þar af leiðandi er nauðsynlegt að vera meðvitaður um neyslu sína.
Uppruni vöru
Neysla allra skiptir verulegu máli vegna þess að hún hefur áhrif á jörðina okkar. Það er öllum hollt að líta inná við og skoða eigin neysluvenjur. Hér verður uppruni tveggja vara skoðaður, annars vegar gallastuttbuxur og hins vegar haframjólk. Þessar vörur eru notaðar mikið á mínu heimili. Þetta geri ég í þeim tilgangi að gera mér betur grein fyrir því hvaða áhrif neysla mín hefur á umhverfið og vekja sjálfa mig til meðvitundar. Hér verður byrjað á að fjalla um flík, uppruna hennar og það langa ferðalag sem hún fór áður en þær enduðu í fataskápnum mínum.
Gallabuxurnar koma frá Costco á Íslandi en samkvæmt athugunum mínum hafa buxurnar ferðast um víðan völl og eiga sér uppruna í Pakistan. Samkvæmt framleiðanda buxnanna er losun CO₂ af hverju pari af gallabuxunum þeirra 33,4 kílógrömm af CO₂ (Levi Strauss & co., 2015) þá er reiknað með öllu sem kemur að framleiðslu buxunanna og einnig flutningi. En þá er væntanlega gert ráð fyrir því að mikið magn af gallabuxum séu sendar í einu og losun gróðurhúsalofttegundanna svo deilt niður á fjölda gallabuxna. Ég ákvað samt sem áður að komast að því hversu marga kílómetra þær ferðast, frá byrjun til enda. Ég komst að því að þær eru framleiddar úr bómull sem er ræktaður, týndur og spunninn í Pakistan, af fyrirtækinu BCI (Levi Srauss & co., 2015) og einnig varð ég þess vís að Pakistan er fjórði stærsti bómullarframleiðandi á heimsvísu og þriðji stærsti framleiðandi spunninna textíl bómullarefna í heiminum (BCI, e.d.a). Better Cotton Initiative eða BCI er fyrirtæki sem hefur undanfarið unnið að því að beita sér gegn nauðungarvinnu ásamt því að vera brautryðjandi í að stuðla að viðeigandi vinnuskilyrðum fyrir starfsmenn sína og bómullarbændur (BCI, e.d.b) og er það því von mín að þeir sem komu að framleiðslu bómullarinnar lifi við góðar aðstæður. Árið 2011 setti fyrirtækið út verkefnið Worker Well-being sem vinnur markvisst að því að bæta líf kvenna og karla sem koma að framleiðslu vöru þeirra svo sem heilsu, fjárhag, öryggi og jafnrétti kynjanna (Levi Strauss & co., e.d.). Bómullin er spunnin í Pakistan og þegar því ferli er lokið eru efnin send til stórfyrirtækja sem vinna úr þeim sína afurð. Í þessu tilfelli er efnið sent til Plock í Póllandi, rúma 5.000 kílómetra, á eina af mörgum verksmiðjum Levi‘s (Levi Strauss & co., 2019) en að því loknu heldur ferðalag gallabuxnanna áfram, rúmlega 16.000 km til dreifingaraðila í Asíu (Levi Strauss & co., 2015) og þaðan fer varan beint úr vöruhúsinu til Bretalands og ferðast þar með 10.200 km til viðbótar (Distance from to, 2021). Þar að auki bætast við tæplega 1900 km frá Bretlandi til Íslands (Distance from to, 2021). Ekki má gleyma að ég keyrði rúmlega 100 kílómetra til þess að eignast buxurnar. Frá því að buxurnar voru einungis bómullin sem er í þeim þá hafa þær ferðast rúmlega 31.000 kílómetra, þegar allt er samanlagt. Það má áætla að einungis ferðalagið losi um 16-30 tonn af CO₂ út í andrúmsloftið (myclimate.org, 2021) en það fer eftir hraða, þyngd og stærð skipsins (The Geography of transport systems, e.d.). Þetta eru stórar tölur fyrir litlar buxur sem eflaust væri hægt að lifa án en líklega kæmu þá aðrar buxur í staðin en ég á erfitt með að trúa því að allir þessir kílómetrar hafi verið nauðsynlegir til þess að koma buxunum í verslun hérna á Íslandi og eflaust hefði mátt spara ferðalagið til Asíu og koma þeim beint til Íslands frá Póllandi.
Matvara
Úr því að matvörurnar sem sænska fyrirtækið Oatly framleiðir eru í miklu eftirlæti hjá þeim fimm grænmetisætum sem búa á heimilinu þá ákvað ég að skoða uppruna haframjólkur sem er ætíð til á heimilinu. Öll framleiðsla haframjólkurinnar fer fram í Svíþjóð þó innihaldsefni hennar séu ekki einvörðu framleidd þar og eru starfsmenn fyrirtækisins fullorðið fólk sem fær borgað fyrir vinnuna sína (Oatly, 2019) og geri ég því ráð fyrir því að þeir sem komi að framleiðslu vörunnar séu í góðum höndum. Hafrarnir eru framleiddir í Svíþjóð, repjuolían er framleidd í Svíþjóð, kalkið kemur frá Bandaríkjunum og Frakklandi, saltið kemur frá Danmörku, vítamínin eru frá Kína, Frakklandi og Bandaríkjunum og sýrustillir sem notaður er í vörurnar er frá Þýskalandi (Oatly, 2019). Mjólkinni er pakkað í Svíþjóð og notast fyrirtækið við endurnýtanlegar pakkningar, þaðan er hún send til byrgja á Íslandi sem sjá um að koma henni í matvörubúðir. Kolefnisspor mjólkurinnar frá framleiðandanum eru 0,27 tonn af CO₂e á hvert kg vöru og er landbúnaðurinn 0.11, vinnsla innihaldsefna 0.02, flutningur innihaldsefnanna 0.02, verksmiðja Oatly 0.03, pökkun 0.07 og dreifing til vöruhúss í Svíþjóð 0.0068 (Carbon cloud, 2020, bls. 3-11, b). Þá á eftir að flytja vöruna tæplega 2000 kílómetra til Íslands og má gera ráð fyrir því að flutningurinn losi um 0,330 tonn af CO₂. Ef ég geri ráð fyrir því að ganga í búðina eða nota hjólið mitt og hjólavagn sem ég keypti bæði notað þá bætist ekki neitt CO₂ ofan á en ef ég keyri bætast við 0,004 tonn af CO₂. Við gætum ekki verið án þessarar vöru að mínu mati og ég tel að af mjólkurvörum sem eru á boðstólnum þá sé þessi var sú besta fyrir okkur þar sem sama ferli kúamjólkur losar um það bil fimm sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum heldur en haframjólk (Carbon cloud, 2020, bls. 12, a). Þó svo ég sé bara ein lítil manneskja í þessum stóra heimi þá hefur það áhrif hvað ég vel að gera, ég veit að ég þarf að taka ábyrgð.
Hvað get ég gert?
Til þess að vinna með náttúrunni í verki þá verðum við að vera meðvituð um fótspor okkar. Á mínu heimili búa tveir fullorðnir, fjögur börn, tveir hundar og þrjár kanínur. Af umhverfisástæðum neytum við ekki dýrafurða þar sem þessar vörur losa töluvert meira af gróðurhúsalofttegundum en grænmetisfæði eða grænkerafæði (Wilson, e.d.). Með þeirri ákvörðun fjölskyldunnar að neyta ekki kjöts, eggja né mjólkurafurða trúi ég því að það komi um 2,5 sinnum minna magn af gróðurhúsalofttegundum frá okkur en ef að myndum borða kjöt og dýraafurðir (Peta, e.d.) einnig geri ég mitt besta til þess að fræða vini og fjölskyldu um það hvernig mataræði okkar hefur áhrif á náttúruna og að allir þurfi að huga að mataræði sínu með tilliti til loftslagsbreytinga. Ef manneskju er alvara með að reyna að leggja sitt af mörkum í að vernda náttúruna er mikilvægast að byrja á því að hætta að neyta kjöts, eggja og mjólkurvara (Peta, e.d.).
Þrátt fyrir að hafa tekið þessa stóru ákvörðun fyrir náttúruna þá er fjölskyldufaðirinn tilneyddur að keyra 80 kílómetra á dag, fimm daga vikunnar til þess að fara til vinnu. Þar sem fólksbíll gefur frá sér um 4,6 kílótonn af koltvísýringi á ári (Green Vehicle Guide, e.d.) og þar sem við eigum tvo bíla sem eru þó í mismikilli notkun hefur þessi bruni gríðarleg áhrif á loftslagið. Losun koltvísýrings er langvirkust í myndun gróðurhúsalofttegunda (Bjarni E. Guðleifsson og Brynhildur Bjarnadóttir, 2019, bls. 133). Karbondíoxíð, metan og nituroxíð eru allt gróðurhúsalofttegundir sem hafa mikil áhrif á loftslagsbreytingar og hlýnun jarðarinnar (Peta, e.d.) og til þess að draga úr gróðurhúsaáhrifum þarf að losa minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið eða binda meira magn af þeim úr loftinu (Bjarni E. Guðleifsson og Brynhildur Bjarnadóttir, 2019, bls.132). Jarðarbúar þurfa að vinna markvisst að því að minnka notkun ökutækja náttúrunnar- og heilsunnar vegna að ganga á milli staða sem er bæði það besta sem við gerum fyrir líkamlega- og andlega heilsu og umhverfið. Við stefnum á að gera breytingar og eignast rafmagnsbíl þegar bílarnir okkar, sem eru báðir gamlir og lúnir, gefa upp öndina.
Breytingar af þessu tagi, stórar og litlar verða að byrja hjá okkur sjálfum. Ég ákvað að reikna kolefnissporið mitt til þess að setja hlutina í samhengi og ég tel að mikilvægt sé að fólk geri það til þess að sjá örlítið betri mynd af því hvað megi gera betur. Samkvæmt reikningum mínum er kolefnisspor mitt um 9,83 tonn CO₂ á ári, sem samsvarar árslosun frá 4,8 bílum eða 62,4 þúsund kílómetra í akstri (Samgöngustofa, 2020). Ég sé það strax að ég er undir meðallagi hins almenna íslendings en það þýðir ekki að ég þurfi ekki að gera betur. Ég mætti til að mynda ganga meira á milli staðar innanbæjar, nýta mér almenningssamgöngur þegar ég ferðast til höfuðborgarinnar og minnka þann úrgang sem kemur frá heimilinu. Einnig þarf ég að vera meðvituð um að vera fyrirmynd fyrir börnin mín og þau sem ég mun kenna í framtíðinni með því sækja mér þekkingu sem þessa.
Gríðarlega mikilvægt er að vinna markvisst að því að auka meðvitund skólabarna um mikilvægi sjálfbærra lífshátta. Ef að leysa á þann vanda sem við stöndum frammi fyrir þá þarf að kenna börnum að það sem þau gera skiptir máli. Sjálfbærni er einn af grunnþáttum menntunar (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 16), ásamt lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð, sköpun, læsi og jafnrétti (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 7) og því ber kennurum skylda til að kenna börnum hvað felst í því að vera sjálfbær og hver tilgangur þess er. Sjálfbærni er þverfagleg grein sem þýðir að hana má kenna þvert á allar aðrar greinar, blanda henni inn í stærðfræði, íslensku, heimilisfræði og svo framvegis. Ekki er gert upp á milli þessara þátta í námskrá en það má samt sem áður velta því fyrir sér hvort einhver af þeim gæti talist mikilvægari en aðrir.
Segja má að grunnþátturinn sjálfbærni sé svo gríðarstór að hann haldi hinum uppi. Ef ekki er unnið að sjálfbærni þá getur ekki verið jafnrétti og án jafnréttis er hvorki heilbrigði né mannréttindi. Án sjálfbærninnar munu markmið annarra grunnþátta menntunar aldrei nást. Sjálfbærni er nauðsynleg svo hægt sé að vinna að alheimsmarkmiðum í sjálfbærniþróun. Kennarar spila stórt hlutverk í þessu samhengi og þeirra hlutverk er að mennta börn til framtíðar og gera þau meðvituð um að það sem þau gera skiptir máli. En því miður er það svo að tilmæli íslenskra grunnskólalaga eru ekki mjög skýr hvað menntun til sjálfbærni varðar (Bryndís Sóley Gunnarsdóttir, Sólveig María Árnadóttir, Bragi Guðmundsson og Ólafur Páll Jónsson, 2020, bls. 19) og þar af leiðandi er það misjafnt eftir skólum hver áherslan á menntun til sjálfbærni er en það eru þó ýmis verkefni sem stuðla að breytingum og meðvitund barna. Verkefni sem stuðla að slíkum breytingum er til dæmis að skrá skóla „ á græna grein “ en með því að taka þátt í verkefninu taka skólar ábyrga afstöðu til umhverfismála og með því vinna skólar markvisst að sjálfbærni í skólanum (Landvernd, 2019a).
Niðurstaða
Ljóst er að það er gríðarlega mikilvægt að vekja skóla, kennaranema og uppalendur til umhugsunar um neysluvenjur sínar og góð leið er að byrja hjá börnunum þar sem þau eru framtíðin. Þar tel ég að það sé gríðarlega mikilvægt að kenna börnum að sjá það hvað þau skipta miklu máli í þróun til sjálfbærni og hvernig þeirra hlutverk getur verið að miðla til foreldra sinna, ömmu og afa og þeirra sem þau þekkja. Ég er mjög hlynnt allri menntun sem fær börn til þess að hugsa og einnig öllu því sem að fær börn til þess að tengja við raunverulega hluti. Kennari þarf að geta unnið með umbreytandi nám sem felur í sér breytingu á því hvernig einstaklingar hugsa um tilveru sína og hvernig þeir tengjast örðu fólki og náttúrunni. Nemendur verða að hugsa á gagnrýninn hátt um eigin gjörðir. Læra að velta fyrir sér sínum eigin gildum og viðhorfum, skilgreina hvaða gildi og gjörðir leiða til ósjálfbærni og finna ný gildi og viðhorf og leiðir sem leiða til sjálfbærni. Einnig þurfa kennarar að vinna með valdeflandi aðferðir menntunar til sjálfbærni sem veita nemendum tækifæri til að líta inn á við og hafa áhrif út á við og verða meðvituð um að það sem hver og einn gerir það skiptir máli út á við. Nemendur framtíðarinnar þurfa að vera færir um að greina stöðuna á gagnrýnan hátt og leita lausna sem leiða til sjálfbærni.
Efnahagurinn byggir á samfélaginu, samfélagið byggir á náttúrunni. Náttúran setur takmörk, auðlindirnar sem allt okkar samfélag og efnahagur byggir á eru takmarkaðar. Náttúran stýrir öllu, svo samfélag og efnahagur geti þrifist þarf að vera náttúra. Sjálfbærni menntun snýst um að koma þessari hugsun inn hjá almenningi og þá í gegnum skólakerfið því menntun á sér fyrst og búa til samábyrgt samfélag þar sem allar ákvarðanir og gjörðir taka mið af þessum grunnstoðum sjálfbærni. Það þarf að búa til samábyrgt samfélag og stuðla að því að allir séu meðvitaðir um hvernig sjálfbærnin á að koma inn í líf okkar allra einungis þannig tekst okkur að búa til samábyrgt samfélag. Mikilvægt er að þroska hvern einstakling sem virkan borgara, meðvitaðan um gildi sín, viðhorf og tilfinningar gagnvart ofantöldum hlutum bæði heima fyrir og hnattrænt. Þetta á við alla menningarhópa í nútíð og framtíð.
BCI. (e.d.a.). Pakistan. Sótt af https://bettercotton.org/where-is-better-cotton-grown/pakistan/
BCI. (e.d.b.). Task Force on Forced Labour and Decent Work. Sótt af https://bettercotton.org/task-force-on-forced-labour-and-decent-work/
Bjarni E. Guðleifsson og Brynhildur Bjarnadóttir. (2019). Náttúruþankar. (bls. 139-180). Reykjavík: Bókaútgáfan Hólar.
Bryndís Sóley Gunnarsdóttir, Sólveig María Árnadóttir, Bragi Guðmundsson og Ólafur Páll Jónsson. (2020). Menntun til sjálfbærni – staða Íslands. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.10
Carbon cloud. (2020a). Climate footprint for Average semi-skimmed-cow milk. Sótt af https://www.oatly.com/uploads/attachments/ckgutw0jf0ff0a8gifvl0wlpe-swedish-semi-skimmed-milk-d.pdf
Carbon cloud. (2020b). Climate footprint for Enriched ambient oat Drink. Sótt af https://www.oatly.com/uploads/attachments/ckgutv9i00fcoa8gi21h3vkkx-enriched-ambient-oat-drink-d.pdf
Green Vehicle Guide. (e.d). Greenhouse gas emissions from a typical passenger vehicle. Sótt af https://www.epa.gov/greenvehicles/greenhouse-gas-emissions-typical-passenger-vehicle#:~:text=typical%20passenger%20vehicle%3F-,A%20typical%20passenger%20vehicle%20emits%20about%204.6%20metric%20tons%20of,8%2C887%20grams%20of%20CO2
Kolefnisreiknir. (e.d.). Landsmenn þurfa að minnka kolefnissporið sitt verulega. Sótt af https://www.kolefnisreiknir.is/
Landvernd. (2019a, 29.nóvember). Vilt þú komast á græna grein? Nýskráning. Sótt af https://landvernd.is/skra-skolann-a-graena-grein/
Landvernd. (2019b, 4.desember). Vistspor. Sótt af https://landvernd.is/vistspor/
Landvernd. (2019c, 4.desember). Kolefnisspor. Sótt af https://landvernd.is/kolefnisspor/
Landvernd. (2021, 15. febrúar). Hvað er sjálfbærni? Sótt af https://landvernd.is/hvad-er-sjalfbaerni/
Levi Strauss & co. (e.d.). Worker well being. Sótt af https://www.levistrauss.com/how-we-do-business/worker-well-being/
Levi Strauss & co. (2015). The life cycle of a jean: Understanding the enviormental impact of a pair of Levi‘s 501 jean. Sótt af https://www.levistrauss.com/wp-content/uploads/2015/03/Full-LCA-Results-Deck-FINAL.pdf
Levi Strauss & co. (2019, 22. júlí). LS&Co. Poland Factory Honored with Energy Efficiency Award. Sótt af https://www.levistrauss.com/2019/07/22/lsco-poland-factory-honored-with-energy-efficiency-award/
Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013. Sótt af https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=f7d55056-989c-11e7-941c-005056bc4d74
My climate. (2021). Calculate and offset your emissions!. Sótt af https://www.myclimate.org/?gclid=Cj0KCQjwse-DBhC7ARIsAI8YcWJNyLjFW25GMlIDpolRxsQoNvUmyuheXd2UG5IwVUkCqtObAZ_ggP4aAtJhEALw_wcB
Oatly. (2019). Sustainability report 2019. Sótt af https://sustainability.oatly.com/
Peta. (e.d.). Fight climate change by going vegan. Sótt af https://www.peta.org/issues/animals-used-for-food/global-warming/
Realeyesvideo. (2010, 9.apríl). Sustainability explained through animation [Myndskeið]. Youtube. www.youtube.com/watch?v=B5NiTN0chj0
Samgöngustofa. (2020). Önnur tölfræði. Sótt af https://www.samgongustofa.is/umferd/tolfraedi/onnur-tolfraedi/
The Geography of transport systems. (e.d.). Fuel consumtion by containership size and speed. Sótt af https://transportgeography.org/contents/chapter4/transportation-and-energy/fuel-consumption-containerships/
Wilson, L. (e.d.) The carbon foodprint of 5 diets compared. Sótt af www.shrinkthatfootprint.com/food-carbon-footprint-diet
8. mars 2021
Hæfileikar geta birst á öllum sviðum, ég trúi því að allir séu hæfileikum gæddir. Þeir sem hafa hæfileika á einu sviði hafa hann kannski ekki á öðru. Einstaklingar eru eins ólíkir og fjöldi þeirra segir til um og þar af leiðandi hlýtur ógrynni af hæfileikaríku fólki að vera meðal okkar. Hæfileikar og áhugamál fara oftast saman, eflaust ýta hæfileikar undir áhuga, en ég trúi að það geti einnig virkað öfugt. Til þess að rækta og þroska hæfileika einstaklinga er menntun nauðsynlegur þáttur, hvort sem talað er um menntun sem á sér stað innan veggja menntastofnanna eða utan þeirra því æfingin skapar jú, meistarann. En jafnframt er það staðreynd að margir einstaklingar sækjast ekki eftir áframhaldandi menntun eftir grunnskóla, þó sumir velji að mennta sig og þróa þar með hæfileika sína. „ Mennt er máttur “ stóð iðulega framan á stílabókum sem seldar voru til skólabarna í kring um 1990 og eflaust er nokkuð til í því máltaki. Með mátt menntunar til hliðsjónar er tilvalið að rýna betur í skilgreiningu á hugtakinu menntun og í framhaldinu, hugmyndir Immanuel Kant um menntun, hæfileika og hverjar skyldur manneskjunnar eru í því samhengi.
Immanuel Kant var þýskur að uppruna og er í hópi merkustu hugsuða heimspekisögunnar (Kant, 1785/2003, bls. 9). Hann er þekktur fyrir hugmyndir sínar um siðferði og skilgreiningar sínar um það hvernig beri að haga sér. Meginregla siðferðis samkvæmt Kant er að hver einstaklingur eigi einungis að framkvæma það sem getur orðið að algildu lögmáli fyrir alla, en jafnframt eru það hlutir sem einstaklingur gerir án nokkurra skilyrða (Kant, 1785/2003, bls. 73-75). Hér verður ekki farið ofan í rót þessara hugtaka en nauðsynlegt er að gera grein fyrir því sem skýrt er að framan; skilyrðislausa skylduboðinu (Kant, 1785/2003, bls. 73-75). Hver og einn hefur skyldur, bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum, það er hlutlæg nauðsyn sem ber til breytni (Kant, 1785/2003, bls. 170). Meginreglu hans má hafa í huga við allar gjörðir okkar, þar á meðal þegar við veltum því fyrir okkur hvort okkur beri að mennta okkur. Kant hafði sínar hugmyndir um menntun og skyldu hvers einstaklings til menntunar.
Menntun
Menntun er vítt hugtak sem kemur inn á ýmsa þætti í lífi fólks og hefur eflaust verið skilgreind á marga vegu. Á 21.öld hefur almenn menntun verið skilgreind út frá þörfum einstaklings og samfélagslegum þörfum. Menntun stuðlar að aukinni hæfni hvers einstaklings á eigin eiginleikum og hæfileikum (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 15). Hver einasta manneskja hefur hæfileika til ákveðinna hluta og ber skólakerfinu skylda til þess að örva einstaklinga til þess að nýta hæfileika sína. Af því leiðir ágóði fyrir hann sjálfan og gríðarlegan ávinning fyrir samfélagið. Mikilvægt er að kenna einstakling samfélagslega menningu sem felur í sér leiðbeiningar og kennslu, og gefur af sér ákveðna hæfileika (Kant, 1803/2007, bls. 444). Menntun á að örva einstaklinginn til að rækta eigin hæfileika í þeim tilgangi að sinna skyldum sínum gagnvart sjálfum sér og samfélaginu (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 15). Út frá þessum skilgreiningum menntunar þá er vert að skoða hvers vegna Kant taldi menntun nauðsynlega.
Manneskjan og menntun
Menntun barna er nauðsynleg samkvæmt Kant, ekki einungis fyrir þau sjálf og líf þeirra heldur einnig til þess að skapa betri möguleika fyrir komandi kynslóðir (Kant, 1803/2007, bls. 437). Það er grundvöllur þróunar, upp á við, að öll börn fái viðeigandi menntun þar sem hún er eina leiðin til þess að aðskilja menn og dýr í sundur og menntun er það eina sem getur gert manneskjuna að manneskju. Með menntun átti hann við stífan aga sem ætti ekki að bíða með, umönnun sem er skilgreind sem gætni eða varúðarráðstafanir og unnin með stuðningi og viðhaldi. Agi gerir manneskjuna að skynsemisveru, kennir henni siðferði og muninn á réttu og röngu (Kant, 1803/2007, bls. 437). Mannveran hefur ekki sömu meðfæddu hæfileika og dýr til þess að sjá um sig sjálf, vinna og bjarga sér, þar af leiðandi þarf að kenna henni það. Þar sem agi leiðir af sér greinarmun á réttu og röngu og iðjusemi þá hefur það í för með sér góðsemi, skynsemi og siðferðisgreind og til þess að geta talist skynsemisvera þarftu að hafa siðferði (Kant, 1785/2003, bls. 162). Þar af leiðandi þurfa allir menntun til að teljast skynsemisverur. Einnig er menntun nauðsynleg til þess að manneskjan sem tegund geti þróast smám saman til fullkomnunar (Kant, 1785/2003, bls. 155), ef einstaklingar fá ekki viðeigandi menntun, með aga, þjálfun, föstum reglum, gætni, stuðning, og viðhaldi, þá er hann ekki fær um að mennta næstu kynslóð, sem myndi leiða af sér andstæðu þess sem menntun gefur af sér. Þar af leiðandi ætti menntun að vera almennt lögmál í ljósi þess að hún viðheldur stofninum.
Ef menntun er almennt lögmál þá er vert að skoða hvernig hæfileikar tvinnast saman við hana og hvort okkur beri skylda til að rækta þá. Beri okkur skylda til þess, væri það þó ófullkomin skylda, með öðrum orðum, þá hefur einstaklingur ákveðið rými með tilliti til þess hvort hann hafi möguleika á því að rækta hæfileika sinn og þarf að meta þá skyldu út frá persónulegu sjónarhorni. Með skylduna í huga þá getur meginreglan um að breyta ávallt á þann hátt að gjörðir mannverunnar geti orðið að lífsreglu eða lögmáli, vissulega gefið hugmynd um hvernig gjörðir einstaklings sem menntar sig og þróar hæfileika sína hefur jákvæðar afleiðingar og ætti með vissu að verða að algildu lögmáli. Til að byrja með, út frá nútíma samfélagi þá er mikil synd þegar hæfileikar manneskju fá ekki að sýna sig. Ekki einungis sjálfs hennar vegna heldur einnig fyrir samfélagið. Einstaklingar sem búa yfir einstökum hæfileikum eru yfirleitt framúrskarandi á sínu sviði og geta þar af leiðandi göfgað og gefið af sér. Einstaklingur ætti að fá að mennta hæfileika sína hvar sem áhugi hans liggur og hafa val um það (White, 2011, bls. 9-16). Sem skynsemisvera ætti hann að vilja þroska hæfileika sína af þeirri ástæðu að þeir þjóna honum og hafa tilgang (Kant, 1785/2003, bls. 143) meðal annars erfast þessir hæfileikar til komandi kynslóða og þróast í leiðinni.
Þar sem Kant lagði áherslu á það að manneskjan þyrfti menntun til að þróast til fullkomnunar þá er það svo að í einstaklingum búa hæfileikar sem leiða til meiri fullkomnunar, hæfileikar sem eru þáttur af því hlutverki sem náttúran ætlar manneðlinu. Það að vanrækja þessa hæfileika fer saman við viðhald mannkynsins og á sama tíma útilokar það markmiðið um að þróa mannkynið til fullkomnunar. Þar af leiðandi getur það ekki orðið að algildu lögmáli að sérhver maður vanræki hæfileika sína. En viljinn er einnig seldur undir þessa meginreglu, af því leitinu til að vilji vegna skyldu sérhverrar skynsemisveru er viljinn sem setur lögmálin. Ef til er lögmál um vilja sérhverrar skynsemisveru þá getur það lögmál einungis boðið okkur að breyta samkvæmt lífsreglu þess vilja sem í okkur er, hann er þá löggjafi sem setur algild lög (Kant, 1785/2003, bls. 156). Kant sagði að manneskjan setji öll lög með breytni sinni (Kant, 1785/2003, bls. 170) og því hvernig skynsemisverur vilja setja algild lögmál (Kant, 1785/2003, bls. 143) þar af leiðandi er viljinn, til þess að breyta samkvæmt lífreglunni, hlutverk löggjafans. Að hafa vilja til að þjóna skyldu sinni er sá vilji sem þarf til að þróa hæfileika sína, ekki einungis sjálfs síns vegna heldur fyrir þróun mannskynsins.
Lokaorð
Af þessari umfjöllun má fá smjörþefinn af hugmyndum Kants um skyldu okkar til menntunar. Viljinn til að setja algild lögmál um að hver einstaklingur rækti hæfileika sína og öðlist menntun, er í sjálfu sér ekki fullkomin skylda, heldur ófullkomin skylda sem öllum ber þó að hafa í huga með tilliti til meginreglunnar og þróun mannkynsins í heild. Menntun á hæfileikum hvers og eins gefur bestu mögulegu útkomuna fyrir samfélagið og manneskjuna sjálfa. Mikilvægir þættir menntunar samkvæmt Kant er stífur agi, hann er undirstaða þess að manneskja skaði ekki samfélagið, þar sem aginn kennir skyldur og siðferði gerir manneskjuna meðvitaða um að velja ekkert nema góða breytni (Kant, 1803/2007, bls. 444). Einnig er menntun nauðsynleg til að viðhalda þekkingu til komandi kynslóða með það að markmiði að þróa mannkynið til fullkomnunar (Kant, 1803/2007, bls. 437). Menntun er máttur af þeirri ástæðu að hún opnar á möguleika einstaklinga til eiga göfugt líf, sjá fyrir sér og samfélaginu og auðga skilning einstaklingsins á því hvað er rétt og rangt. Hafa ber í huga að Kant skrifar sína hugsmíð á allt öðrum tímum en nú og eflaust hefur margt breyst og þróast, en þó er mannveran enn í þróun til fullkomnunar og þar af leiðandi eru þessi sjónarmið þáttur í að auðga einstaklinga 21.aldar.
Heimildir
Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið. 2013. Sótt af https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=f7d55056-989c-11e7-941c-005056bc4d74
Kant, I. (2003). Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni (Guðmundur Heiðar Frímannsson þýddi). Reykjavík: Hið Íslenzka bókmenntafélag (frumútgáfa 1785).
Kant, I. (2007). Lectures on pedagogy. (Robert B. Louden þýddi). New York: Cambridge University Press (frumútgáfa 1803).
White, J. (2011). What does it mean to be well-educated?. Think 28(10), bls. 9-16.
Gestný Rós 12. febrúar 2021
Kennarastarfið er yfirleitt talið bæði krefjandi og gefandi starf. Ég hef alltaf verið meðvituð um það að ég vilji vinna með börnum og hef margoft sagt það upphátt, börn eru það besta í þessum heimi að mínu mati og ef ég get gert eitthvað til þess að bæta þeirra veröld þá kýs ég það fram yfir öll önnur hlutverk. Ég er innilega þakklát fyrir að vera komin á þann stað sem ég er á í mínu námi og lífi og ég tel mig eiga góða möguleika á því að verða góður kennari. Sem kennaranemi tel ég mikilvægt að ég skoði sjálfa mig, mína sýn á því hvernig kennarastarfið birtist mér og komi því niður á blað. Til að byrja með langar mig að velta vöngum yfir því hvað ég tel að góður kennari þurfi að vera meðvitaður um til þess að verða betri, hver tilgangur starfsins er og hver mín sýn er á kennarastarfinu.
Áður en ég byrjaði ég í náminu þá velti ég því lítið fyrir mér hvaða kostum góður kennari byggi yfir, nema þann augljósa kost að vera einfaldlega góð og kærleiksrík manneskja. Eftir að ég fór að velta þessu aðeins fyrir mér þá fer ég ekki ofan af því að það að vera góð og kærleiksrík manneskja sé mjög mikilvægur kostur. Einnig tel ég að kennari þurfi ávallt að vera opinn fyrir síbreytileika í starfi sínu, þar sem starfið og andrúmsloftið í kennslustofunni getur orðið eins skapandi og skemmtilegt og kennarinn er tilbúinn til. Dewey taldi að það kæmi allt of mikil stjórnun frá kennaranum enn það hefur þau áhrif að nemendur fá ekki nægilegt frelsi eða rými til þess að gera mistök, komast að hæfileikum sínum og fara út fyrir þægindarammann. Út frá eigin reynsluheimi segir Walter að hann hafi sjálfur átt erfitt með að vera ekki við stjórn en hann hafi ákveðið að bakka í því hlutverki og leyfa hlutunum að gerast án þess að hann sé að hafa þessu miklu áhrif í kennslustofunni. Flest allt sem á sér stað í kennslustofunni er undir áhrifum frá kennaranum en mín sýn er sú að það er gríðarlega mikilvægt að bakka annað slagið úr stjórnunarstöðunni, gefa nemendum örlítið lausari taum, mynda lýðræðislegt samfélag inn í bekknum sem getur orðið til þess að nemendur upplifi öryggi og virðingu. Slíkt umhverfi getur fengið þá til þess að skína sínu rétta ljósi og þar gætum við kennarar jafnvel séð allt aðra hlið á nemanda sem við höldum að hafi ekki áhuga á náminu. Við þurfum að finna leiðir til þess að ýta undir áhuga með öðruvísi leiðum. Einnig gætum við séð þetta frá því sjónarhorni að koma okkur sjálfum út úr kennslubókinni, finna fjölbreyttari og nýstárlegri kennsluaðferðir, sem styðja við allar kröfur námskrár, hoppa út úr þeim ramma sem fortíðin hefur fest okkur í og opna hugann fyrir öllum þeim möguleikum sem umhverfið, náttúran og tæknin bjóða uppá til kennslu.
Nú á dögum er tæknin í stanslausum uppgangi og í stað þess að ýta þeirri tækni frá eins og hún sé óvinur þá er nauðsynlegt að skoða hvernig hægt er að líta á hana sem verkfæri í kennslu. Walter nefnir í myndbandinu sínu að hann geti ekki verið góður kennari án þess að nýta þá upplýsingatækni sem er á boðstólnum og hann telur að nemendur geti ekki lært allt það sem kennarinn vill kenna þeim án þess að nýta upplýsingatækni í kennslu. Frá mínu bæjardyrum séð þá er upplýsingatækni nauðsynlegt verkfæri á tækniöld þar sem nemendur í grunnskólum eru af þessari kynslóð þar sem tæknin er mjög stór partur af daglegu lífi. Ég ímynda mér að nýta mér mismunandi forrit í kennslu í framtíðinni ég tel að það sé góð leið til þess að gera nemendur að virkum þátttakendum og þegar tæknin er partur af náminu sína nemendur viðfangsefninu meiri áhuga. Hægt er að nýta sér ,,podcast‘‘ með því að fjalla um námsefnið og jafnframt geta nemendur gert sín eigin. Heimasíðugerð, þar sem nemendur búa heimasíðu getur aukið samvinnu, samheldni og sjálfstæði sem ekki myndi skapast í hefðbundinni verkefnavinnu. Auk þess að opna á möguleikann að vinna með öðrum, hvar sem þeir eru staðsettir. Tæknin eykur möguleika allra á að læra, við höfum ólíkar þarfir og tæknin opnar möguleika til þess að fara ólíkar leiðir að sama viðfangsefni. Í náminu mínu nýti ég mér tæknina mikið og ég hugsa að án hennar væri ég nokkuð illa stödd. Ég hef til að mynda mætt á ógrynni af fjarfundum á Zoom, unnið margvísleg verkefni í Google docs með fólki um allt land, búið til mínar eigin hljóðupptökur af ákveðnum viðfangsefnum sem ég get svo hlustað á hvar og hvenær sem er. Ég held utan um allt skipulag með Google calander og án þessara forrita færi mikil vinna í að skipuleggja mig sjálf, en ég tel að skipulag sé nauðsynlegur þáttur í því að ná árangri í námi.
Megintilgangur kennarastarfsins í mínum huga er að ná til nemendanna og finna leiðir til að auka árangur. Ekki einungis árangur nemandans í náminu heldur einnig árangur hans til þess að öðlast þroska og tilfinningagreind, það sama á við um kennarann. Við erum alltaf að læra og þó svo að kennaranemi hafi klárað sitt nám sem kennari þá hefur hann ekki lokið því á öðrum sviðum. Tilgangur kennarans er að geta gefið af sér, smita nemendur af áhuga, hjálpa nemendum að læra að læra, vinna markvisst að því að gera námið eins áhugavert og mögulegt er og að sjálfsögðu miðla svo nemandinn geti nýtt sér þá þekkingu sem hann lærir. Kennarinn er stjórnandi í sinni kennslu en að mínu mati eru takmörk fyrir því. Ég tel að það sé öllum kennurum hollt að opna fyrir flæði og vera opinn fyrir þeim hugmyndum sem nemendur hafa og grípa þær á lofti í kennslu. Einnig tel ég mikilvægt að gera sér grein fyrir grunnþáttum menntunar, sem eru samkvæmt aðalnámsskrá sköpun, læsi, heilbrigði og velferð, lýðræði og sjálfbærni. og vinna markvisst að því að nýta þessi þverfaglegu fög í kennslu. Það er ekki síður mikilvægt að kenna nemendum virðingu, fyrir sjálfum sér, öðrum og náttúrunni, góða breytni, samvinnu, hvernig við getum leyst úr vandamálum og svo framvegis en ég tel að besta leiðin til þess sé að vera fyrirmynd.
Ég tel að fyrirmyndir séu vanmetnar þegar kemur að börnum en að mínu mati þá er það eitt af lykilatriðum sem að einkennir góðan kennara. Kennarinn þarf að gera hluti sem hann vill geta speglað í nemendum sínum og þar af leiðandi þarf hann að vera tilbúinn til þess að prófa það sem hann hefur ekki látið reyna á. Til þess að vera góður kennari þá þarf hann að vera tilbúin til þess að fara nýjar leiðir, gera mistök og læra af þeim. Hann þarf að vera tilbúinn til þess að fara út fyrir þægindarammann sinn vegna þess að þægindaramminn takmarkar og hamlar okkur í að fara nýjar leiðir. Ef að leiðir eru ekki prófaðar þá finnast þær ekki. Mistök eru til þess að læra af þeim, koma til baka og skoða hvað megi gera betur. Mig langar að verða góður kennari sem er opinn fyrir þeim breytileikum sem felst í starfinu, kennari sem er skapandi í hugsun, vinnur með nemendum sínum að nýjum óvenjulegum leiðum sem gætu mistekist, en þær gætu líka heppnast vel og þar er ávinningurinn.
Skapandi hugsun er einn af mínum góðu kostum ásamt því að vera áhugamanneskja um breytingar. Breytingar eru góðar og þær henta mér vel. Einnig er ég metnaðarfull og ég hef mikla ástríðu fyrir þeim hlutum sem ég tek mér fyrir hendur. Ég hef sérstaka tengingu við börn og unglinga vegna þess eins að ég ber mikla virðingu fyrir þeim og þeirra tilfinningum. Jafnframt hef ég sterkt innsæi og hef alltaf sótt í að gera óvenjulega hluti og taka áhættur í takt við innsæi mitt og síðast en ekki síst þá þá hefur reynsla mín kennt mér að mistök eru af hinu góða, ég væri ekki sú sem ég er ef ég hefði ekki gert mistök og lært af þeim. Af þeim hef ég lært meira en af flest öllu öðru. Það er mikilvægur lærdómur dregin af því að vera óhræddur við að gera mistök. Mistök eru daglegt brauð í lífi manneskju og mig langar til að miðla því til nemenda minna hver raunverulegur tilgangur þeirra sé. Þó svo ég sé mjög meðvituð um mistök og gæði þeirra þá á ég það samt til að ganga of nærri sjálfri mér þegar ég geri mistök. Ég get átt erfitt með að stoppa mig af þegar ég vil breyta til og stundum hugsa ég hluti ekki til enda. Mín upplifun er sú að það geti bæði verið kostur og galli en ég vil venjast því betur að gera mistök og að þau hafi þau áhrif á mig að læra af þeim og ekki gefast upp. Ég bind vonir mínar við það að ég geti smitað mín sjónarmið og gildi til nemenda minna vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að nemendur taka það sem þeim er kennt út í lífið og til komandi kynslóða.
Heimildir
Last Bacpack. (2014, 2.júní). Dr. Zachary Walker, 5 Questions for Today's Educators [myndskeið]. Youtube. https://www.youtube.com/watch?v=K2r1mr8LsxA&feature=emb_titleWebanywhere. (2021). Top 6 benefits of using technology in the classroom [bloggfærsla]. Sótt af www.webanywhere.co.uk/.