Skyndibitamatur er yfirleitt næringarsnauður og óheilsusamur í miklu magni. Stakur Big Mac ostborgari samsvarar 3,4 - 4,82 kg af CO2. Þar af eru 5 kg frá dísilútblæstri, 9 kg frá raforkuútblæstri og 2,6 kg frá nautgripum. Til þess að koma þessu í örlítið samhengi þá samsvarar 1 lítri af bensíni 2.3 kg af CO2 sem þýðir það að einn ostborgari hefur sama útblástur og 2 lítrar af bensíni.
Börn þurfa næringarríka fæðu sem samanstendur af góðum kolvetnum, prótíni og hollri fitu. Grænmeti, ávextir og baunir eru til dæmis næringarríkur kostur. Að meðaltali þá er plöntumiðað mataræði með 10 til 50 sinnum minni losun gróðurhúslofttegunda en fæða sem ekki er plöntumiðuð, svo sem kjöt og ostur.
Fólksbíll gefur frá sér um 4,6 tonn af koltvísýringi á ári. Sumar fjölskyldur eiga jafnvel tvo bíla eða fleiri. Að ganga í skóla, á æfingu og í búðina er bæði gott fyrir líkamlega- og andlega heilsu og umhverfið. Jarðarbúar þurfa að vinna markvisst að því að minnka notkun ökutækja náttúrunnar- og heilsunnar vegna.
Skjátími barna eykur kyrrsetu og dregur einnig úr líkamlegri virkni sem getur haft ofþyngd í för með sér, kyrrseta er algengust í löndum sem eru efnahagslega vel sett. Lífsstíll sem felur í sér mikla kyrrsetu minnkar lífslíkur og eykur einnig hættuna á langvinnum lífsstílstengdum sjúkdómum. Talið er að mikil kyrrseta tvöfaldi líkurnar á hjarta og æðasjúkdómum, offitu og sykursýki II. Þá felur slíkur lífsstíll einnig í sér aukna hættu á ristilkrabbameini, háum blóðþrýstingi, beinþynningu, þunglyndi og kvíða. Framleiðsla á þeim tækjum sem notuð eru í skjátíma barna er gríðarleg, en talið er að fimm söluhæstu framleiðendur spjaldtölva hafi sent frá sér 43.5 milljón stykki á einu ári. Ef neysla á skjátækjum myndi minnka á þann hátt að eitt tæki væri nægilegt magn fyrir hverja fjölskyldu til lengri tíma myndi útblástur framleiðslu þeirra minnka og tíminn gæti farið í góð samskipti eða hreyfingu. Gott er þó að hafa í huga að slík tæki geta einnig minnkað aðra neyslu (t.d. sparað pappír og blek) ef tækin eru látin duga til langs tíma en neysluhyggja ýtir undir það að fólk kaupi nýtt tæki án þess að þurfa á því að halda.
Líkamleg virkni og sjálfbærni tvinnast saman. Að hjóla í skólann á hverjum degi dregur úr kolefnisspori einstaklinga og hefur einnig verulegan heilsufarslegan ávinning; dregur úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki II, ákveðnum tegundum af krabbameini, öndunarfæra- og stoðkerfisvanda og nýrnasjúkdómum. Niðurstaða rannsóknar sem gerð var í Danmörku var sú að þeir nemendur sem gengu eða hjóluðu í skóla höfðu mun betri einbeitingu en þau börn sem gerðu það ekki.
Það er vel hægt að persónugera náttúruna og bera til hennar tilfinningar. Hún er lifandi þó svo hún sé ekki í mannslíkama og hún er orka eins og allt sem lifir. Við þurfum að sýna henni vingjarnleika og slík tilfinning tengist samvisku okkar. Samviskan tilheyrir mannlegu eðli og hún getur haft mikil áhrif á þá sem hafa hana, á þann hátt getum við bundið vonir við að jarðarbúar breyti á þann hátt að leitast eftir því að koma betur fram við náttúruna. Hamingjan næst einungis ef komið er fram við náttúruna af virðingu og þar sem útkoman muni gefa ánægju og sársaukaleysi fyrir sem flesta.
Samkvæmt nytjastefnunni eru ánægja og sársaukaleysi einu eftirsóknarverðu markmið manneskjunnar til þess að lifa sem bestur lífi, allir eftirsóknarverðir hlutir eru einungis eftirsóknarverðir annaðhvort vegna ánægjunnar sem þeir veita eða vegna þess að þeir leiða til ánægju eða koma í veg fyrir sársauka. Ef hver einasti jarðarbúi breytti eftir þeirri frumreglu sem nytjastefnumenn setja fram þá yrði útkoman sú að skynsemi jarðarbúa segði þeim að sjálfbærir lífshættir eru lífsnauðsynlegir hverju mannsbarni.
Sjálfbærni felur í sér að jarðarbúar takmarki neyslu sína þar sem ofneysla ýtir hvað hraðast undir hlýnun jarðar. Við getum öll vanið okkur á að vilja, þar getum við einnig vanið okkur á að breyta rétt fyrir náttúruna.
Til að byrja með voru peningar einskis virði, eina sem hægt var að gera við peningana var að skipta þeim fyrir eftirsóknaverða hluti. Þar af leiðandi voru peningar ekki eftirsóknaverðir vegna þeirra sjálfra heldur vegna þess sem hægt var að fá fyrir þá. En hægt og sígandi hafði vaninn kennt manneskjunni að halda áfram að afla peninganna en á sama tíma fjarlægðist hugmyndin um það hvers vegna peningarnir voru eftirsóknaverðir. Þar af leiðandi sækist fólk eftir peningum sem það vill vegna þess að vaninn kenndi þeim að langa í þá.
Þetta má auðveldlega yfirfæra á alla veraldlega hluti sem fólk sækist eftir að eignast, hluti sem vaninn hefur kennt okkur að vilja. Þessi hugsun ýtir undir neyslu og hún ýtir undir hlýnun jarðar.