Ég veit ekki með þig, en ég heiti að minnsta kosti Gestný. Það er mjög misjafnt hvernig nafnið mitt hljómar í annarra manna eyrum og það er ákveðin lífsreynsla að heita óvenjulegu nafni, hér er til dæmis umræða um ,,ljót nöfn'' og þar er nafnið mitt listað. En mér líkar vel við nafnið mitt og það er það sem skiptir máli.
Ég hef alltaf haft mikla sköpunarþörf og fyrir 14 árum byrjaði ég að sauma mér til gamans. Á þeim tímapunkti byrjaði einhver bolti að rúlla og áður en ég vissi af hafði ég ekki undan að sauma töskur, peysur, buxur og kjóla fyrir alla mögulega. Vörurnar mínar urðu gríðarlega vinsælar og hef ég að mestu hannað og framleitt fatnað undir mínu merki síðan 2007. Þessi misserin er ég hins vegar aðallega kennaranemi, á fyrsta ári í Háskólanum á Akureyri. Það var aldrei ætlun mín að fara í kennaranám og verða kennari þegar ég yrði stór en svo breytist lífið og ég með.
Ég bý í Hveragerði og er gift Stefáni Erni. Saman eigum við 4 börn á aldrinum 1 árs - 11 ára, tvo enska bolabíta og tvær kanínur. Ég er fædd 13 apríl árið 1987 í Reykjavík en uppalin í Þorlákshöfn og var nemandi í Grunnskólanum í Þorlákshöfn frá 1993-2003 en fór svo í Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem ég kláraði 40 einingar. Ég tók eina önn í Fjölbrautaskólanum í Ármúla og kláraði sögu og uppeldisfræði í sumarskóla í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Vorið 2015 útskrifaðist ég úr háskólagátt Háskólans á Bifröst.
Árið 2017 fór að blunda í mér löngun til þess að sækja um í sálfræði við Háskólann á Akureyri, sem ég gerði og hóf ég nám það haust en ég gerði mér fljótlega grein fyrir því að mig langaði að skipta yfir í kennaradeildina. Þar sem ég var ófrísk af eldri syni mínum á þeim tíma þá tók ég ákvörðun um að hætta í sálfræði og geyma allt nám fram á haustið 2018.
Haustið 2018 kom og taldi ég að réttast væri að geyma hugmyndina um nám áfram þar sem að ég var þá með ungabarn og ófrísk af yngri syni mínum. En á þessum tíma sem hafði liðið frá því að kennarafræinu hafði verið plantað þá óx innra með mér gríðarleg þrá til þess að fara í kennaranám. Ég ákvað því að sækja um fyrir haustið 2020 með von um það að komast inn. En sú var ekki raunin þar sem ég fékk skilaboð frá skólanum um að umsókn minni hafi verið synjað.
Viðbrögð mín við því voru í sjálfu sér ekki mjög tilfinningaþrungin, þar sem ég hef ávallt trúað því að ef hlutir eigi að gerast þá munu þeir finna sína leið, ef til vill var mér ekki ætlað að verða kennari. Ég hafði gert plan B og úr því að svo fór sem fór með námið þá fór öll mín einbeiting í að sinna því plani. Sjö dögum áður en skólinn átti að hefjast haustið 2020 fæ ég svo óvænt meldingu um að ég hafi verið samþykkt sem nemandi við kennaradeildina í Háskólanum á Akureyri. Nú var að hrökkva eða stökkva og niðurstaðan var sú að ég er hér, byrjuð á fyrsta ári og er jafnframt að taka 2.árs áfanga.
Ég er agalega þakklát fyrir gang mála og mér líður vel í náminu mínu. Ég er sífellt að læra nýja hluti sem þroska mig sem manneskju og opna hug minn fyrir margvíslegum hliðum kennarastarfsins. Ég hef mikinn áhuga á öllu sem viðkemur börnum, uppeldi og samskiptum og hef alla tíð átt falleg tengingu við þau börn sem ég hef kynnst. Ég er með sterka réttlætiskennd og á auðvelt með að aðstoða aðra. Ég er skapandi, hugmyndarík og með frjótt ímyndunarafl og mín von er sú að þeir kostir geti fleytt mér áfram á mínu ferðalagi til þess að verða góður kennari.
-Gestný Rós
Hveragerði
Ég er lítið fyrir alhæfingar og ég vil ekki láta mata mig af upplýsingum sem ég hef ekki reynslu af, þess vegna vel ég alltaf að prófa hluti áður en ég mynda mér skoðun. Ég hef búið í Hveragerði í 18 ár með nokkrum undantekningum; Reykjavík, Borgarbyggð og Þorlákshöfn. Ég virðist alltaf leita aftur til Hveragerðis og nú hef ég áttað mig á því að hér á ég að vera. Okkur fjölskyldunni líður hvergi betur, hér er frábær skóli, flottir leikskólar og íþróttastarfið til fyrirmyndar. Það sem mér þykir þó standa upp úr er fallegt og samheldið samfélag þar sem náungakærleikurinn er nánast áþreifanlegur.